Færsluflokkur: Menntun og skóli

Og enn bætast við myndir.

Fékk sent fullt af flottum myndum frá Sigríði Alfreðs sem ég var að setja inn. Sá að Margrét Þóra í Noregi óskaði eftir að við settum texta við myndirnar því hún þekkti ekki alla. Magga þú verður bara að koma næst og rifja upp hvernig við lítum út eftir öll þessi ár. Kveðja Gauja.

Fleiri myndir.

Það hafa tveir sent okkur myndir og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Þetta eru Helgi Páls og Gunnar Sigurðs. Albúmin sem myndirnar  þeirra eru í eru merkt þeim. Endilega sendið okkur meira af myndum, það er svo gaman að skoða þær. Okkur langar alveg sérstaklega að fá eina hópmynd eins og margir tóku af hópnum  fyrir utan stúkuhúsið. Jón Allans sendi  líka allar gömlu myndirnar sem voru sýndar á árgangsmótinu. Vona að þið skoðið þessar myndir af þessu einstaklega myndarlega fólki ykkur til ánægju og yndisauka. Ef þið eigið myndir þá sendið þær til Jóns Allans. Bestu kveðjur frá nefndinni.

Gleðitíðindi frá nefndinni.

Í seinustu viku nánar tiltekið á þriðjudag kom nefndin sem sá um árgangsmótið saman og fór yfir fjárhaginn. Gjaldkerinn Sigríður Alfreðs sá um að allir fengju greitt það sem þeim bar. Maturinn var náttúrlega dýrasti pósturinn og svo þurfti að borga þessum yndislegu stúlkum á barnum og svo framvegis. En öllum aukakostnaði var haldið í algjöru lágmarki. Í ljós kom að við getum endurgreitt öllum sem komu tvö þúsund krónur til baka og er gjaldkerinn byjaður að endurgreiða inn á bankareikninga ykkar. Við færððum okkur úr dýrum sal og vorum ekki með neinn til að sjá um diskóið Við ákváðum að hafa þetta svona ekki mun af veita á þessum síðustu og verstu tímum. Þau rök komu líka fram að við sem komum núna á árgangsmótið  ættum ekki að greiða niður verð fyrir þá sem koma næst. Og ekki endilega víst að öll okkar komi á það næsta. En ég er alveg viss um að margir koma á það. Það hlýtur að fréttast hvað það var  sérstaklega skemmtilegt á þessu móti. Hvet ykkur enn og aftur að senda Jóni Allans myndir svo hægt sé að setja þær inn á bloggið okkar. Vonandi gleðjist þið yfir þessari ákvörðun okkar og ef þið þurfið ekki að nota peningana þá getið þið sjálf ráðstafað þeim í þágu góðs málefnis, eða bara gert eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni eða vinum. Fyrir hönd nefndarinnar, Gauja.

Takk fyrir síðast...

Jæja árgangsmótið búið og fór vel fram. Við í nefndinni vonum að allir hafi skemmt sér vel. Við  skemmtum okkur að minnsta kosti alveg konunglega. Vonum að við höfum ekki verið ein um það. Maturinn frá Galító var alveg sérstaklega góður og rauðvínið ekki síðra. Þökkum ykkur kærlega fyrir komuna og settum nokkrar myndir  inn á bloggið okkar sem þið getið byrjað að skoða. Þið sem voruð með myndavélar munið svo að senda Nonna Allans myndir svo hægt sé að setja inn fleiri myndir  af þessu fallega fólki að skemmta sér. Við í nefndinni hittumst svo á þriðjudaginn til að ganga frá  fjármálunum, greiða reikninga fyrir matinn og þess háttar. Gunnar Sigurðsson kom með þá ágætu tillögu sem nánast allir samþykktu að setja afganginn af peningunum inn á sjóð sem næsta nefnd myndi nota. En næstu nefnd skipa Gunnlaugur Björnsson, Sigurður Heiðar Steindórsson og Friðrik Friðriksson. Þeir velja svo með  sér fleiri ef þeim finnst þess þurfa. Setjum inn meiri fréttir af nefndastörfum síðar í vikunni. Kær kveðja Gauja.

Stefnir í stóru stundina.

Komið þið öll sæl. Nú styttist óðfluga í hittinginn og árgangsmótið. Ótrúlegt  en satt mér finnst það hafa verið bara í gær sem nefndin  tók til starfa en það var víst í vor. Ég vona að allir komi með góða skapið og get glatt ykkur með því að þáttakan er heldur að glæðast. Þetta stefnir í að vera ágætt og ekki eins fámennt og horfur voru á um tíma. Að gamni langar mig  til að benda ykkur á bloggið hennar Guðríðar Haralds sem ætlar að vera veislustjóri hjá okkur. Þar er ein færsla um árganginn alveg hreint yndislega fyndin og í hennar anda. Þar er líka ein mynd af bekknum hennar í bóhöllinni  að lesa upp ljóðið Illur lækur eftir Jónas Hallgrímsson tekin á árshátíð skólans þegar hún var í sjö ára bekk.  Og ef mig misminnir ekki þá byrjar þetta ágæta ljóð á orðunum : Nú fór illa móðir mín , mér var það samt ekki að kenna, sástu litla lækinn renna og svo framv. ( sem þýðir ég man ekki mikið meira af ljóðinu !! það er aldurinn) Við í nefndinni ætlum að hittast annað kvöld fara yfir dagskrána svona til öryggis. Annars ætlum við að reyna að vera ekki mjög formleg og hafa þetta allt á léttu nótunum, skemmta okkur sjálfum og vonandi ykkur í leiðinni. Hlakka til að hitta ykkur, kveðja frá nefndinni. Gauja

Fréttir frá skemmtilegustu nefndinni.

Fundur í dag hjá nefndinni til að fara yfir stöðuna og ganga frá ýmsum lausum endum. Til þess að stuðið verði endalaust á laugardaginn eða þannig. Tek nú bara svona til orða en að minnsta kosti voru allir sem eru í þessari ágætu nefnd í virkilega góðum gír og mikil tilhlökkun að hitta ykkur öll sem ætla að mæta á árgangsmótið. Verið er að ganga frá skemmtiatriðum og stífar æfingar í gangi. Við vitum að einhverjir eiga enn eftir að bætast í þann góða hóp sem þegar hefur boðað komu sína og ykkur að segja verður enn hægt að borga alveg fram til 2. okt. Þann dag verðum við að gefa upp endanlega tölu þátttakenda til þeirra sem sjá um matinn. Nú er bara að taka fram bomsurnar og betri fötin og bregða sér bæjarleið. Minnum ykkur á að enn er möguleiki að bætast í hópinn því  fleiri sem mæta því fjögugra verður hófið, ( eða óhófið...). Nefndin hefur ákveðið til að gera þetta nú enn þægilegra og aðgengilegra þar sem við erum nú farin að eldast og til þess að þurfa ekki að þramma neitt á spariskónum þá verðum við bara áfram á safnasvæðinu eftir móttökuna á laugardaginn það þýðir verðum ekki í sal Íþróttahússins á Jaðarsbökkum heldur í sal á safnasvæðinu, látið það berast til þeirra sem þið vitið að koma. Allir sætustu strákarnir og stelpurnar ætla að koma en enn er pláss fyrir fleiri. Meira næstu daga fyrir hönd nefndarinnar, Gauja.

Styttist í stuðið...

Nú  fer að styttast í sjálft árgangsmótið og við í nefndinni hvetjum ykkur eindregið til að tilkynna þátttöku og greiða sem fyrst. Þó við höfum sett dagsetninguna 25. september sem tímamörk verður hægt að borga alveg til 28. sept. en ekki lengur því við verðum að gefa upp endanlega tölu hvað verða margir í matnum. Þeir hjá Galító sem verða með matinn ætla líka að vera með vínveitingar svo barinn verður opinn allt kvöldið og fram á nótt. Verst hvað það eru fáir staðir hér á Skaganum sem eru með gistingu, ekki lengur hótel eða Barbró, eina sem er í boði er heimagisting hjá Ólínu Jónsdóttur  sem var kennari í Brekkubæjarskóla og Grundaskóla og á Móum, pantið gistingu í tíma ef þið þurfið. Annars er bara að kvabba á vinum og vandamönnum. Við í nefndinni erum hissa á hvað þeir úr árgangnum sem búa í bænum eru seinir að skrá sig. Í heildina eru mun fleiri sem ekki búa á Skaga búnir aðtilkynna þátttöku. Hvernig er þetta eiginlega áfram Skagamenn, drífa í að skrá sig og mæta. Nefndin hefur sent SMS til margra að minna á okkur. Hlökkum til að hittast hvetjið þá sem þið þekkið úr árgagnum til að koma. Meira fljótlega-

Nýjustu nefndarfréttir 17. sept.

Við sem skipum nefndina hittumst á mánudaginn í Skrúðgarðinum kaffihúsi okkar Skagamanna, því nú fer að líða að árgangsmótinu. Við fórum aðeins yfir fyrirhugaða dagskrá og vorum sammála um að hafa hana flæðandi eða ekki mjög niðurnjörvaða eða þaulskipulagða. Ekki verður uppistand eins og oft hefur verið þar sem allir standa upp og segja frá sínum högum yfir hópinn. Ef við þekkjum ekki alla verðum við bara hvert og eitt að spyrja viðkomandi hver hann sé og hvað hafi á daga hans drifið frá því við hittumst seinast ef við viljum vita hvað hann geri hvað og hvað hann eigi mörg börn og svo framvegis. En fyrst og fremst ætlum við að hafa gaman af lífinu og okkur sjálfum, skemmta okkur  og öðrum í leiðinni langt fram eftir nóttu. Við höfum heyrt í nokkrum sem ætla að mæta og allir hafa þeir lýst ánægju sinni með framtak nefndarinnar. Nefndarmenn vona að það sé ekki orðin tóm og þátttakan verði almenn og góð. Auðvitað eru sumir að fara til útlanda og ein úr árgangnum er meira að segja að halda upp á afmælið sitt þetta kvöld. Hvet ykkur eindregið til að nota bloggið til að fylgjast með, skrifa í gestabókina eða athugasemdir það er svo skemmtilegt, verið virk í þessu með okkur. Minnum ykkur á að tilkynna þátttöku og borga fyrir 25. september. Skrifa meira fljótlega bið að heilsa ykkur öllum  kveðja, Gauja.

Nýjustu fréttir frá nefndinni 5.sept.

Komið þið öll sæl. Nefndin góða sem tók að sér að sjá um næsta árgangsmót hittist heima hjá Siggu Alfreðs á mánudagskvöldið. Tilefnið var að setja dreifibéfið í umslögin og skrifa heimilisföngin utan á. Þannig að nú ættu allir eða flestir að hafa fengið bréfið. Ýmislegt var reynt til að hafa upp á heimilisföngum allra. Send var fyrirspurn til Þjóðskrár varðandi heimilisföng þeirra sem eru búsettir erlendis, en eftirtekjan varð rýr bara tvö heimilisföng. En sem betur fer eru í nefndinni ráðsnjallir menn og líka konur. Jón Allans fór inn á símaskrár á netinu og hafði nokkrar adressur upp úr krafsinu. Svo var bara gamla góða aðferðin maður þekkir mann og síminn notaður. Ég held ég megi segja að við höfum haft upp á nánast öllum. Við sendum bréfin til þeirra sem eru hér á landi á heimilisföng samkvæmt þjóðskrá. Ég hvet ykkur til að kíkja á bloggið og sé að bloggsíðan á vin. Takk fyrir Einar Vignir Einarsson. Nefndinni hefur borist fyrirspurn varðandi maka og þeirra þátttöku. Því er til að svara að nefndin ákvað að þetta árgangsmót yrði makalaust í tvennum skilningi. Yrði veglegt og flott og bara við í árgangnum. En mér finnst að nefndin sem sér um næsta árgangsmót taki þessa ábendingu til skoðunar. Okkur í nefndinni hefur borist til eyrna að mörgum þyki verðið hátt eða 8.900 krónur. Því er til að svara að hlutinir bara kosta þetta. Maturinn kostar 5.500 svo þarf að greiða húsaleigu og Óla Palla þó hann gefi okkur verulegan afslátt. Eins og margir í árgangnum átti ég 30 ára stúdentsafmæli í vor á það nemendamót kostaði 8.400 ef mig misminnir ekki og núna er 15 prósent verðbólga. Vona að þessi umræða um kostnað hafi ekki neikvæð áhrif á þátttöku og að sem flestir mæti og fjárfesti til framtíðar í góðum minningum um góða kvöldstund með gömlum vinum og skólafélögum. Meira síðar, kær kveðja Gauja.

Ný bloggsíða- fyrsta færslan.

Komið þið öll sæl. Ég opna þessa bloggsíðu fyrir hönd nefndarinnar sem hefur tekið að sér  að sjá um næsta árgangsmót. Tilgangur hennar er að við í hinum víðfræga 1958 árgangi á Skaganum getum verið í góðu og gagnvirku sambandi. Sem stendur er undirbúningur fyrir hittinginn í fullum gangi. Ákveðið hefur verið að mótið verði laugardaginn 4. október 2008 í íþróttamiðstöðinni á Jaðarsbökkum. Auðvitað verður öllum sent bréf með nánari upplýsingum um verð og alveg frábæra dagskrá sem er í burðarliðnum. Í nefndinni eru auk mín Guðbjörn Tryggva, Haraldur Helga,  Jón Allans, Sigríður Alfreðs og Þórunn Steinars. Það væri alveg æðislegt ef einhver ætti og vildi setja inn á síðuna myndir bæði frá því í gamla daga og eins frá fyrri árgangsmótum. Bara svo við getum glatt okkar geð við að skoða þetta afskaplega huggulega fólk og tísku liðinna ára ( áratuga, he, he). Ef þið eigið myndir sendið mér póst á netfangið gudjona.kristjansdottir@sha.is  

Kveðja Gauja. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband